
Þessi mynd var tekin kl. 16:41 í gærdag. Þar er gufa innst í þeim hluta Hrunaárgils sem sést á myndinni. Neðan við gufuna er mjór hraunstraumurinn, svartur á að líta. Í neðsta hluta gilsins sem sést á myndinni er gilbotninn eins og hann var fyrir gos, grýttur og vatnssorfinn. Það er
stórhættulegt að reyna að fikra sig inn eftir gilinu. Þær eiturgufur sem fylgja eldgosum og helzt hafa orðið mönnum að aldurtila eru þyngri en andrúmsloftið og streyma eins og ósýnilegar ár niður hlíðar og gil. Við sérstök skilyrði í loftinu má stundum sjá slíka gasstrauma og ljósmyndarar lágu sumir þolinmóðir yfir tækifæri til þess að mynda slíkt í Heimaeyjargosinu. Forðizt líka allar skjólsælar skvompur utan við gilið. Þótt enn hafi ekki verið staðfest gasstreymi frá þessu gosi, má reikna með því. Gera má ráð fyrir miklum straumi fólks inn í Bása og áfram inn að gosstöðvum um helgina svo að það er full ástæða til þess að vara við gasinu.